Heim » Fréttir » Fréttir » Launahækkanir og verðbólgan?

Launahækkanir og verðbólgan?

Launahækkanir og verðbólgan?

Það er átakanlegt að hlusta á ráðamenn þjóðarinnar tala um hættur þess að hækka laun of mikið svo kaupmáttur verði varin og verðbólgan fari ekki af stað.SA hafa gengið svo langt og haldið því fram að 20% flöt launahækkun muni skila minna í vasa launafólks en 3,5% hækkun á ári í 3 ár. Meira að segja ASÍ og Seðlabankastjóri hafa tekið undir þennan málflutning SA manna.  Ég veit ekki hvað hægt er að segja um svona fullyrðingar. Annað hvort er þetta meðvitaður málflutningur til að halda úti láglaunastefnu og misskiptingu lífsgæða eða fádæma vanþekking og hjarðhegðun.Í fyrsta lagi hafa launahækkanir takmörkuð áhrif á verðbólgu og í raun mjög lítil áhrif ef aðrir þættir eru skoðaðir.

Tökum sem dæmi: Hagar sem er stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi þar sem launakostnaður er um10% af heildar kostnaði. Hvað hækkar launakostnaður fyrirtækisins ef laun hækka um 20%? Svarið er 2% Og hvað þarf fyrirtækið að hækka vöruverð mikið til að mæta þeim kostnaði?

Launakostnaður Icelandair gæti verið um 20% af heildar kostnaði og svo mætti lengi telja. Það eru vissulega til fyrirtæki sem hafa hærri hlutfallslegan launakostnað en staðreyndin er sú að stærstu fyrirtæki landsins eru einmitt á því róli sem á undan er talið.

Hvað veldur verðbólgu og hvaða þættir spila þar stærstu rulluna.

1. Heimsmarkaðsverð á Olíu hefur t.d. haft meiri áhrif á verðbólgu hér á Íslandi undanfarin ár en launahækkanir. Þetta sýna afar áhugaverðar rannsóknir Viðars Ingasonar Hagfræðings VR sem er líklega ein bjartasta von launafólks sem komið hefur fram í langan tíma. Viðar hefur sýnt fram á að meint áhrif launahækkana á verðlag og verðbólgu eru í besta falli draugasögur um hábjartan dag.

2. Gengis sveiflur hafa meiri áhrif á verðlag heldur en launahækkanir og má nefna í því samhengi að dollarinn hefur hækkað um rúm 13% á síðustu 12 mánuðum og erlent vöruverð í sama gjaldmiðli um 5-7% (verðbólga í Asíu). Þannig að vörukaup fyrirtækja í dollurum munu hækka umtalsvert á þessu ári ef heldur áfram sem horfir. Flestir gjaldmiðlar hafa yfir 20 faldað verðgildi sitt gagnvart íslensku krónunni á síðustu 33 árum. Sem kemur að næsta lið sem hefur líklega hvað mestu áhrifin.

3. Peninga stefna stjórnvalda. Fjármagn í umferð er líklega einn stærsti áhrifavaldur verðbólgu á íslandi. Ef þú prentar 1.000 kr. Seðil og kemur honum í umferð í íslensku hagkerfi rýrnar verðgildi allra króna sem fyrir eru um sömu upphæð.  Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur tekið saman óvenju góða samantekt á fylgni peningamagns í umferð og verðbólgu. Honum hefur tekist að sína fram á nákvæma fylgni peninga magns og verðbólgu með 5 ársfjórðunga millibili og sveiflast þessi gröf með nákvæmlega sama hætti, og hafa gert það síðustu áratugina en gröf Ólafs ná vel fyrir fæðingardag minn sem ég fer ekki nánar út í.

4. Hjarðhegðun samfélagsins hefur meiri áhrif á verðbólgu en launahækkanir. Hvað gerist ef laun hækka um 3,5%?  Þegar búið er að setja punktinn yfir i-ið á kjarasamningum koma Ríki, bæjar og sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir sem hækka verð á vöru og þjónustu um sambærilegt hlutfall og samið var um.  Án þess að færa fyrir því gild rök og sýna fram á raunþörf fyrir meintum hækkunum. Þessi hjarðhegðun er til komin vegna áróðurs aðila vinnumarkaðarins, stjórnmálamanna og Seðlabankastjóra um gríðarleg áhrif launahækkana á verðlag. Það hefur oft verið sagt að hagfræðingar séu aldir upp á tómu bulli í Háskólum landsins og um víða veröld. Það er greinilega meinið hér, eða misskiptingin svona hryllilega innprentuð í þjóðarsálina. Við trúum öllu sé það sagt nógu oft.

5. Hræðsluáróður og láglaunaánauð. Verðtryggingin og vaxta okrið er líklega ein mesta meinsemdin í íslensku samfélagi og er óspart notuð í hræðslu áróðri SA og jafnvel ASÍ líka. Ekkert má gera nema lánin hækki. SA/ASÍ og seðlabankinn telja að laun megi ekki hækka mikið meira en verðbólgumarkmið, sem hafa sjaldnast staðist frá upphafi mælinga. Þannig er verðtryggingin notuð sem svipa á launafólks sem tekur andköf í hvert einasta skipti sem hún er nefnd á nafn. Þótt óskiljanlegt sé að ASÍ geti varið þessa helstu meinsemd launafólks og verið virkur þáttakandi í því áróðurs ofbeldi sem á sér stað er alveg ljóst að hreinsa þarf duglega úr verkalýðshreyfingunni og byrja á toppnum. Það ætti að vera forgangs verkefni launafólks.

6. Það sem fyrrnefndir Viðar og Ólafur hafa einnig bent á er þörfin fyrir að hækka laun í því ástandi í dag þar sem hagkerfið er við frostmark og verðhjöðnum hefur myndast. Þetta hafa embættismenn áttað sig á í þýskalandi og fleiri löndum. Þetta kallast launadrifinn hagvöxtur þar sem talað er um jákvæð áhrif þess að hækka laun, þá sérstaklega þeirra lægst settu og draga úr gríðarlegri misskiptingu sem liggur eins og krabbamein á þessu samfélagi sem og annars staðar í heiminum.  Með vænlegri hækkun lægstu launa og millitekjuhópa mun neysla aukast í stað hagnaðar fyrirtækja. Aukin neysla skilar sér strax út í hagkerfið og bætir stöðu og þegar uppi er staðið, afkomu fyrirtækja.

Að lokum.

Látum ekki ala okkur á uppgjöf og aumingjaskap. Látum ekki hræðslu áróður hagsmuna aðila slá okkur út af laginu. Stöndum í lappirnar gagnvart kröfum okkar og verum óhrædd við að berjast fyrir mannsæmandi lífskjörum.

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *