Persónuverndarstefna og lýsing á vinnslu persónuupplýsinga Verkalýðsfélag Grindavíkur

  1. Ábyrgðaraðili og persónuverndarfulltrúi

Ábyrgðaraðili að vinnslustarfsemi er Verkalýðsfélag Grindavíkur kt 540775-0529. Persónuverndarfulltrúi stéttarfélagsins er Halldór Oddsson, S: 533-5600 tölvupóstfang halldoro@asi.is .

  • Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga

Tilgangur vinnslu stéttarfélagsins er margbreyttur en í grundvallaratriðum er hann þríþættur:

  • Veita tiltekna þjónustu skv. lögum og reglum félagsins

Í fyrsta lagi er tilgangur vinnslu stéttarfélagsins að veita félagsmönnum stéttarfélagsins tiltekna þjónustu. Sú þjónusta er m.a. skilgreind í lögum félagsins. Hluti af þessari þjónustu á sér stað á vegum sjúkrasjóðs, orlofssjóðs eða fræðslusjóðs félagsins. Er þá félagsmaðurinn beðinn um tilteknar upplýsingar til þess að unnt sé að afgreiða mál hans, t.a.m. kvittanir vegna styrks til náms, upplýsingar um greiðslu veikindadaga hjá atvinnurekanda o.fl. Þá eru upplýsingar úr félagsskrá um greiðslu iðgjalda til félagsins nýttar til þess að staðreyna réttinn og eftir atvikum fjárhæð réttinda í samræmi við reglur sjóða félagsins. Þar að auki er þjónusta veitt vegna kjaramála sem koma á borð félagsins. Slík kjaramál styðjast að meginstefnu við upplýsingar sem félagsmaðurinn er beðinn um að afhenda kjaramálafulltrúa svo unnt sé að fara í mál fyrir hann, t.d. launaseðla, bankayfirlit, staðgreiðsluyfirlit Ríkisskattstjóra, tímaskrift o.fl. Í þessum tilfellum byggist vinnsla persónuupplýsinga fyrst og fremst á samþykki félagsmannsins, sbr. 1. tölul. 9. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og þar að auki eftir atvikum á 2. og 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. sömu laga ef upplýsingarnar teljast viðkvæmar í skilningi laganna.

  • Mótun kröfugerðar fyrir hönd félagsmanna

Í öðru lagi er tilgangur vinnslu stéttarfélagsins mótun kröfugerðar f.h. félagsmanna. Í hana eru  notaðar launaupplýsingar félagsmanna, sem fengnar eru í gegnum upphæð iðgjalda til félagsins. Byggist sú vinnsla persónuupplýsinga á 6. tölul. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga enda lykilupplýsingar við mótun kröfugerðar félagsins f.h. félagsmanna og í samræmi við tilgang félagsins. 

  • Fullnusta lagaskyldu

Í þriðja lagi felst tilgangur vinnslu stéttarfélagsins í fullnustu lagaskyldu. Sem dæmi þá er kveðið um í  b. liði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, skal umsögn hlutaðeigandi stéttarfélags eða landssambands launafólks liggja fyrir vegna afgreiðslu tímabundins atvinnuleyfis. Í þeim tilvikum sem stéttarfélagið er beðið um að veita umsögn er tekin afstaða til atvinnuleyfis tekin á grundvelli upplýsinga sem félaginu eru veittar og í ákveðnum tilvikum upplýsinga sem félagið aflar frá opinberum aðilum. Þá byggist vinnslan á 3. tölul. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og eftir atvikum 2. og 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga ef upplýsingarnar teljast viðkvæmar í skilningi laganna.

  • Hverjir eru skráðir einstaklingar hjá stéttarfélaginu? Hvaða upplýsingar hefur félagið aðgang að?

Skráðir einstaklingar hjá stéttarfélaginu eru félagsmenn þess auk þeirra einstaklinga, sem sótt hafa um atvinnuleyfi og félagið beðið um umsögn um þann einstakling. Til viðbótar hefur félagið aðgang að upplýsingum úr Þjóðskrá um einstaklinga og fyrirtæki.

  • Iðgjaldasaga

Stéttarfélagið hefur í fyrsta lagi aðgang að iðgjaldasögu félagsmanns og þar með upplýsingar um launakjör hans hjá atvinnurekanda, eða hvort annar, t.a.m. Fæðingarorlofssjóður eða Greiðslustofa atvinnuleysisbóta, hafi greitt af félagsmanni til stéttarfélagsins.

  • Aðstoð vegna kjaramáls

Í öðru lagi eru til staðar upplýsingar um hvort félagsmaður hafi leitað fulltingis félagsins vegna kjaramáls, þ.m.t. vegna vangoldinna launa og uppsagna. Í þeim málum er iðulega beðið um launaseðla, bankayfirlit, staðgreiðsluyfirlit Ríkisskattstjóra, tímaskrift og fleiri upplýsingar eftir atvikum. Félagsmaðurinn sækir viðkomandi upplýsingar sjálfur og afhendir stéttarfélaginu.

  • Umsókn um styrk í sjóði félagsins

Þá eru í þriðja lagi til staðar upplýsingar um hvort félagsmaður hafi sótt um styrk eða styrki í sjóði félagsins, hvaða styrk er um að ræða og upphæð styrksins. Þar að auki, hafi félagsmaður keypt afsláttarmiða eða nýtt annarra hlunnindi hjá félaginu, er það einnig skráð. Jafnframt er skráð ef félagsmaður er settur á bannlista vegna slæmrar umgengni um orlofshús stéttarfélagsins.

  • Umsókn um sjúkradagpeninga og meðfylgjandi gögn

Í fjórða lagi eru upplýsingar um hvort að félagsmaður hafi sótt um sjúkradagpeninga í sjúkrasjóð félagsins vegna veikinda eða annarra aðstæðna, upphæð styrksins auk allra gagna sem slíkri umsókn fylgja, t.d. læknisvottorð, sjúkradagpeningavottorð og vottorð atvinnurekanda um veikindadaga starfsmanns.

  • Upplýsingar úr Þjóðskrá

Í fimmta lagi hefur stéttarfélagið upplýsingar úr Þjóðskrá um félagsmenn. Þar með taldar eru lögheimili, hjúskaparstaða og hver maki félagsmannsins er ef á við, þjóðerni og kennitala.

  • Eyðing persónuupplýsinga

Meginreglan er sú að persónuupplýsingum sé í síðasta lagi eytt við lok almanaksárs þess, sem er sjö ára frá öflun þeirra upplýsinga. Iðgjaldasaga félagsmanns, þ.m.t. upplýsingar um greiðslur úr sjúkrasjóðum félagins, auk upplýsinga um aðstoð félagsins í kjaramálum eru aftur á móti undantekningar. Öllum upplýsingum sem aflað er í sambandi við kjaramál, t.d. launaseðlum og tímaskriftum, er þó eytt í samræmi við meginregluna.

  • Vinnsluaðilar stéttarfélagsins

Nánari skilgreining á sambandi stéttarfélagsins við vinnsluaðila, hverjir vinnsluaðilarnir eru, hvaða vinnsla fer fram og með hvaða upplýsingar.

  •  DK hugbúnaður ehf., kt. 661198-2499 er hugbúnaðarfyrirtæki sem rekur félagakerfi stéttarfélagsins, Jóakim
  • XXX  XXX hefur umsjón með heimasíðu félagsins.
  • Tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir

Félagakerfi stéttarfélagins er aðgangsstýrt til þess að tryggja ýtrustu persónuvernd skráðra einstaklinga. Einungis þeir starfsmenn, sem þurfa nauðsynlega aðgang að tilteknum upplýsingum um skráðan einstakling vegna vinnu starfsmannsins f.h. stéttarfélagsins, hafa aðgang að viðkomandi upplýsingum.