Heim » Fréttir » Fréttir » Verkalýðsfélag Grindavíkur krefst verulegra kjarabóta

Verkalýðsfélag Grindavíkur krefst verulegra kjarabóta

Kastljósinu var sérstaklega beint að kjaramálum á fundum í Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Fréttir | 21. janúar 2015 08:54

Verkalýðsfélag Grindavíkur krefst verulegra kjarabóta

„Við höfum haldið þrjá fjölmenna félagsfundi, þar sem kjaramál voru á dagskrá. Hljóðið er þungt í fólki, sem krefst verulegra kjarabóta í næstu samningum og að samið verði til tveggja til fjögurra ára,“ segir Magnús Már Jakobsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur í tilkynningu frá félaginu. Hann segir greinilegt að fólk sé tilbúið í verkfallsaðgerðir, til að knýja fram réttlátar leiðréttingar launa.
Á fundi í gærkvöldi var samþykkt ályktun, þar sem skorað er á atvinnurekendur að ganga til samninga um verulegar kjarabætur til handa verkafólki.

„Eftir nokkur mögur ár í kjaramálum teljum við öll rök hníga að því að verkafólki verði tryggðar tekjur til lágmarksframfærslu fyrir skikkalegan vinnutíma. Útflutningsfyrirtæki hafa verið að sýna met afkomu undanfarin misseri og tekjuhærri hópar samfélagsins hafa verið að fá verulega hærri kjarabætur en verkafólk, auk þess hafa stjórnendur og millistjórnendur fyrirtækja tekið sér miklar hækkanir umfram alla aðra,“ segir í ályktuninni.

Magnús Már segir að hljóðið sé þungt í félagsfólki, enda geti almennt launafólk ekki framfleitt sér af hefðbundnum dagvinnulaunum. Í ályktun félagsins er skorað á atvinnurekendur að ganga nú þegar til alvöru samninga.

„Við viljum að samningstíminn verði tvö til fjögur ár, þannig verði frekar hægt að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Á þessum félagsfundum kom líka fram skýr skilaboð um að samið verði um krónutöluhækkanir, en ekki prósentuhækkanir,“ segir Magnús Már Jakobsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.