Laugardaginn 13. febrúar árið 1937 var haldinn fundur í Kvenfélagshúsinu í Grindavík. Til fundarins boðuðu nokkrir verkamenn sem höfðu í huga að stofna með sér verkalýðsfélag og mættu 25 menn. Fundinn setti Erlendur Gíslason og lýsti tilgangi fundarboðsins. „Voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að stofna verkalýðsfélag sem léti sig skipta kjör manna, bæði á sjó og landi“, segir í fyrstu fundargerð félagsins, ákaflega fallega ritaðri af Guðlaugi Þórðarsyni. Fyrsta stjórn félagsins var kosin en í henni voru: Erlendur Gíslason formaður, Guðlaugur Þórðarson ritari og Bjarni Guðmundsson féhirðir, eins og það var kallað í fundargerðinni. Í varastjórn voru Arilíus Sveinsson varaformaður, Vilmundur Stefánsson vararitari og Karl Guðmundsson varaféhirðir.

Á þessum fyrsta fundi var rætt um hlutaskipti á bátunum og voru fundarmenn sammála um að kjörin á bátunum skyldu vera sem líkust. Stjórninni var falið að kynna sér kauptaxtann í Keflavík og semja taxta fyrir hið nýstofnaða félag með hliðsjón af honum og reyna síðan að ná samningum við atvinnurekendur. Formaðurinn Erlendur Gíslason bar fram þrjár tillögur á fundinum sem allar voru samþykktar samhljóða. Sú fyrsta var um að á báti með átta mönnum sé 14 ½ staða skipti, útgerðin skaffi allt sem að netum lýtur nema riðil, hann skuli borgaður af óskiptu. Önnur tillagan var um að mánaðarkaup skuli vera 220 krónur á mánuði og vinnuveitandi ábyrgist þriggja mánaða vinnu. Þriðja tillagan var þess efnis að inntökugjald karla skyldi vera 2 krónur og árstillag þeirra 4 krónur en að konur skyldu greiða 1.50 krónur við inngöngu og 3 krónur á ári. Erlendur var þó ekki lengi formaður félagsins því að hann gerðist síðar bóndi í Biskupstungum. Svavar Árnason varð fljótlega formaður og gegndi því starfi í tuttugu ár.

Fyrsti kjarasamningurinn

Á framhaldsstofnfundi var samþykkt að sækja um inngöngu í Alþýðusamband Íslands en við það styrkti félagið betur stöðu sína. Fyrsti kjarasamningur félagsins við vinnuveitendur í Grindavík var gerður nokkrum dögum eftir stofnun félagsins eða þann 25. febrúar 1937. Fyrir félaginu vakti að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í hvívetna, utan hefðbundinna kjarasamninga. Í bréfi sem stjórnin skrifaði til ASÍ í maímánuði árið 1938 fór hún fram á stuðning sambandsins við aðgang að vegavinnu frá Hafnarfirði til Krísuvíkur. Atvinnuleysi var í Grindavík og oddviti bæjarins hafði þegar lýst þörfinni á atvinnu fyrir forsætisráðherra.
Í bréfinu segir stjórnin: „Þar sem við álítum Verkalýðsfélagið og Alþýðusambandið réttu samningsaðila þessu viðvíkjandi sendir félagið 1 mann á ykkar fund. Öll sanngirni mælir með okkur. Með félagskveðju.“
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrstu kjarasamningarnir voru gerðir heima í Grindavík og beint við útvegsmenn þar. Núna fylgja kjarasamningar félagsins almennum samningum sem Starfsgreinasambandið, áður Verkamannasambandið, gerir fyrir hönd félagsmanna.


Fyrir utan hefðbundin störf stéttarfélaga stofnaði félagið, ásamt atvinnurekendum, sér lífeyrissjóð árið 1970. Sjóðurinn fékk nafnið Lífeyrissjóður verkafólks í Grindavík. Hann var síðar sameinaður Lífeyrissjóði Suðurnesja þann 1. janúar árið 2000.