Lög

Verkalýðsfélags Grindavíkur

 

 

I. KAFLI

NAFN OG HLUTVERK

 

1. grein

Nafn og félagsvæði

Félagið heitir Verkalýðsfélag Grindavíkur. Félagssvæði þess er Grindavíkurkaupstaður. Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Einnig getur félagið sótt um og gerst aðili að öðrum landssamböndum ef það er talið eiga við vegna starfsgreina.

 

2. grein                       

Tilgangur                                                                

Tilgangur félagsins er sá að efla og styðja hag félagsmanna, með því meðal annars:

a]         Að skipuleggja innan sinna vélbanda allt almennt og sérhæft launafólk á félagsvæðinu, er starfar eftir þeim kjarasamningum og sérsamningum sem félagið gerir og er aðili að.

b]         Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör þeirra og aðbúnað á vinnustað og gæta þess, að ekki sé gengið á rétt þeirra.

c]         Að standa vörð um réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnu- og velferðarmálum.

d]        Að stuðla að því að félagsmenn geti notið orlofs og annarra frístunda, sem best til hvíldar og menningarauka.

e]         Að vinna að hvers konar fræðslu- og menningarmálum, sem beint og óbeint geta komið félagsmönnum til góða.

 

3. grein                       

Starfsvið

Félagið skal kappkosta að standa vörð um hagmunamál allra sem starfa á félagssvæðinu og falla undir þá kjarasamninga sem félagið á aðild að hverju sinni.

 

4. grein                       

Réttur til inngöngu

Félagið er opið öllu almennu og sérhæfðu launafólki, sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a]         Sé starfandi eftir þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að.

b]         Eru fullra 16 ára að aldri.

c]         Eru hvorki skuldugir né standa í óbættum sökum við félagið eða önnur verkalýðsfélög innan Alþýðusambands Íslands.

 

5. grein          

Aukaaðild og Gjaldfrjálsir félagsmenn

Ellilífeyrisþegar og öryrkjar, sem ekki greiða gjöld til sjóða félagsins af þeim sökum geta einnig verið félagsmenn enda hafi verið að berast af þeim greiðslur til Vlf. Grindavíkur þegar þeir fóru af vinnumarkaði.

 

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs og aðra sem stunda vinnu sem samningsréttur félagsins nær til á félagsvæði félagsins um stundarsakir.

Aukafélagar greiða fullt gjald til félagsins meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.

Stjórn getur þó ákveðið við afgreiðslu einstakra mála, í tengslum við kjarasamninga, að aukafélagar hafi atkvæðisrétt.

Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.

Ellilífeyrisþegar og öryrkjar, sem ekki greiða gjöld til sjóða félagsins af þeim sökum geta einnig verið félagsmenn enda hafi verið að berast af þeim greiðslur til Vlf. Grindavíkur þegar þeir fóru af vinnumarkaði.

Gjaldfrjálsir félagar njóta réttinda í sjóðum félagsins eftir því sem ákveðið er í reglugerð viðkomandi sjóða eða lögum félagsins. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en hafa hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.

 

 

6. grein                       

Inntaka nýrra félaga

Sá sem óskar eftir inngöngu í félagið skal afhenda skrifstofu þess skriflega inntökubeiðni. Hafi félagsmaður sem uppfyllir ákvæði 4. greinar og greitt félagsgjald til félagsins í 6 mánuði telst hann fullgildur félagi. Ákvörðun um synjun á félagsaðild skal tekin á stjórnarfundi.

Synji stjórnarfundur einhverjum inngöngu í félagið, má skjóta málinu til Starfsgreinasambands Íslands og/eða miðstjórnar Alþýðusambands Íslands en úrskurður stjórnar gildir þar til að annar úrskurður er felldur.

 

7. grein           

Úrsögn úr félaginu

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins.

Ef viðkomandi hættir störfum á starfsviði félagsins telst hann að 6 mánuðum liðnum ekki lengur fullgildur félagsmaður.

Enginn getur sagt sig úr félaginu á meðan viðræður um kjarasamninga, vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna stendur yfir. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hefur niður vinnu vegna vinnudeilu.

 


II. KAFLI

RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA

8. grein                       

Réttindi félagsmanna 

Réttindi fullgildra félagsmanna eru eftirfarandi:

a]         Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum og við allsherjaratkvæðagreiðslur ásamt kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra heildarsamtaka sem félagið er aðili að.

b]         Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra.

c]         Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum sem samningar ákveða hverju sinni.

d]        Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og samþykktir félagsins ákveða hverju sinni.

e]         Réttur til að sækja fræðslustarf á vegum félagsins eða samtaka sem það er aðili að.

f]         Réttur til aðstoðar vegna vanefnda á kjarasamningum, ráðningarkjörum og til annarrar þjónustu sem félagið veitir.

 

9. grein                       

Skyldur félagsmanna

Skyldur félagsmanna eru þessar:

a]         Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og halda í einu og öllu samninga er félagið hefur gert við atvinnurekendur og aðra.

b]         Að greiða félagsgjöld.

c]         Að veita stjórn félagsins og starfsmönnum þess upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilmála hjá þeim atvinnurekendum sem þeir vinna eða hafa unnið hjá.

d]        Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur 3 ár eða lengur í stjórn félagsins samfellt, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstarfi fyrir félagið í 3 ár eða lengur getur hann skorast undan endurkjöri.

e]         Að stuðla að því eftir mætti að ófélagsbundnið launafólk gangi í félagið og tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum félagsins.

 

10. grein                       

Félagsgjald

a]         Félagsgjald og greiðsluform þess skal ákveðið á aðalfundi fyrir það ár sem yfir stendur og skulu vera tiltekinn hundraðshluti af launum. Tillögu um breytingu á félagsgjaldi skal leggja fram 7 dögum fyrir aðalfund ella sé það óbreytt milli ára. Tillaga um breytingu á félagsgjaldi nær því aðeins samþykki að 2/3 atkvæða séu með henni.

b]         Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin félagsgjöld eða getur ekki sýnt fram á að félagsgjald hafi verið dregið af launum hans fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar og kjörgengis, né styrkja úr sjóðum, nema sannað sé að veikindi, starfsmenntun, atvinnuleysi, heimilisaðstæður, barnsburðarleyfi eða aðrar gildar ástæður séu orsök þess að hann hafi ekki unnið á starfssvæði félagsins.

c]         Félagsmenn 67 ára og eldri sem hættir eru störfum halda félagsréttindum  og eftir atvikum réttindum í sjóðum félagsins skv. reglugerðum hvers og eins, þó þeir greiði ekki félagsgjöld enda hafi þeir verið fullgildir félagsmenn við starfslok. Sama á við um þá sem eru fullgildir félagsmenn og verða fyrir varanlegri örorku og hætta störfum á vinnumarkaði.

 

11. grein        

Um brot á félagslögum og brottrekstur úr félaginu

Hafi félagsmaður brotið lög, reglugerðir eða fundasamþykktir félagsins, bakað því tjón eða unnið félaginu ógagn með öðrum hætti er stjórn félagsins heimilt að veita viðkomandi félagsmanni áminningu, beita fésektum eða víkja honum úr félaginu ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað sem áminnt hefur verið fyrir áður. Einnig getur stjórn svipt viðkomandi rétti til að sinna trúnaðarstörfum. Úrskurði stjórnar má skjóta til félagsfundar.

Ef félagsmaður er sakaður um brot samkvæmt 1. málsgrein skal félagsfundur úrskurða í málinu eftir að hafa gefið stjórn félagsins og viðkomandi einstaklingi tækifæri til málsvarnar.

Úrskurði félagsfundar um áminningu, brottrekstur eða fjársektir má vísa úrskurði til Starfsgreinasambands Íslands og/eða miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Úrskurður félagsfundar gildir þar til annar úrskurður er felldur. Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í það nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á löglegum félagsfundi.

 

 

III. KAFLI

DEILDIR INNAN FÉLAGSINS

 

12. grein                                                       

Stofnun deilda innan félagsins

Stjórn félagsins getur ákveðið að stofna deildir innan félagsins er taki til þeirra starfsgreina, sem félagsmenn vinna í. Einnig er heimilt að á sama hátt, að taka inn í félagið í heild önnur verkalýðsfélög, sem nú starfa eða kunna síðar að starfa í einstökum starfsgreinum eða svæðum, enda hafi borist um það formleg tilmæli frá viðkomandi félögum.

 

13.grein                                                        

Starfsreglur deilda og starfandi deildir

Deildir innan félagsins ráða sérmálum sínum, kjósa sér stjórn, setja sér lög og starfsreglur og fara með samninga um kaup og kjör innan viðkomandi starfsgreinar. Allar deildir innan félagsins eiga aðild að viðkomandi sérgreinasambandi. Lög og starfsreglur deildanna þurfa samþykkis aðalfundar Vlf. Grindavíkur.

 

 

IV. KAFLI

STJÓRN OG TRÚNAÐARMANNARÁÐ

 

14. grein         

Skipan stjórnar

Stjórn félagsins skipa 7 menn. Formaður, varaformaður, ritari og 4 meðstjórnendur. Stjórnin skiptir með sér verkefnum. Kjörtímabil formanns og varformanns eru tvö ár, en kjörtímabil annarra stjórnarliða er eitt ár. Varastjórn skipa fjórir félagar,

 

15. grein         

Störf stjórnar

Stjórn félagsins hefur á sinni hendi daglegan rekstur félagsins og yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda sbr. 19. gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Ennfremur ákveður stjórnin, hvort félagsmönnum skuli greidd þóknun fyrir tiltekin störf á þágu félagsins og þá hversu mikil.

Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins, varðveislu þeirra og viðhaldi. Skylt er stjórninni að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum fyrir félagið, skal hann skila af sér öllum þeim gögnum, er trúnaðarstarf hans varða.

 

16. grein         

Störf formanns

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Heimilt er að skipa fundarstjóra í stað formanns til að stjórna fundum. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

 

17. grein         

Störf ritara

Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundagerðir og lagabreytingar. Skulu fundargerðir stjórnarfunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta fund.

Ritari undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins, en fundargerðir skulu engu að síður skráðar. Ritari ber ásamt formanni ábyrgð á að skjöl félagsins og önnur gögn séu varðveitt með skipulegum hætti.

 

 

 

18. grein         

Trúnaðarmannaráð

Innan félagsins starfar trúnaðarmannaráð, sem í eiga sæti allir aðalmenn og varamenn í félagstjórn og ennfremur 5 félagsmenn aðrir, sem eru sérstaklega kosnir til setu í ráðinu. Kjörtímabil trúnaðarmannaráðs skal vera tvö ár. Formaður félagsins er jafnframt formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins, ritari þess. Formaður kveður trúnaðarmannaráðið til funda, þegar honum þykir ástæða til eða félagsstjórn ákveður. Skylt er honum að boða til fundar ef þriðjungur trúnaðarmannaráðs óskar þess skriflega og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarmannaráðsfundur er löglegur ef meirihluti ráðsmanna er mættur.

Trúnaðarmannaráð skal móta stefnu félagsins í kaupgjalds, kjara og atvinnumálum, í samræmi við ákvarðanir aðal- og félagsfunda.

Trúnaðarmannaráð kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga.Trúnaðarráð hefur meðal annars umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamninga, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undirrita kjarasamninga. Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu slíkra mála.

Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarmannaráð stjórninni til aðstoðar, þegar ýmis önnur félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar.

 

 

V. KAFLI

FUNDIR OG STJÓRNARKJÖR

 

19. grein         

Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir þegar þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 20 fullgildir félagsmenn óska þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara með auglýsingum, sem tryggt er að geti náð til félagsmanna. Þó má í sambandi við vinnudeilur og verkfallsboðanir boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstaka félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi, er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.

 

20. grein         

Aðalfundir

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með sjö sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1.      Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár

2.      Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

3.      Kosning stjórnar, varastjórnar, trúnaðarmannaráðs og kjörstjórnar, enda fari kosning ekki fram með allsherjaratkvæðagreiðslu

4.      Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og einn til vara.

5.      Lagabreytingar, ef fyrir liggja.

6.      Ákvörðun félagsgjalda.

7.      Önnur mál.

21. grein        

Stjórnarkjör og allsherjaratkvæðagreiðslur

Heimilt er að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og trúnaðarmannaráðs og skal tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi. Annars skal kjósa stjórn á aðalfundi. Kjósa skal sérstaklega formann, varaformann,en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

Trúnaðarmannaráð gerir tillögur félaga í allar trúnaðarstöður sem kosið er um á aðalfundi. Trúnaðarmannaráð skal hafa lagt fram tillögur sínar a.m.k. 14 dögum fyrir aðalfund og skulu tilögur þegar auglýstar, ásamt þeim fresti sem gefinn er til að skila inn breytingartillögum. Breytingartillögum um félaga í embætti formanns og varaformanns skulu berast stjórn félagsins a.m.k. sjö dögum fyrir aðalfund, breytingartillögur um aðrar trúnaðarstöður geta komið fram á aðalfundi. Persónukjör gildir í allar trúnaðarstöður.

Hafi komið fram breytingartillaga um félaga í einstakar trúnaðarstöður, skal kjósa milli allra, sem tillögur hafa verið gerðar um í hvert trúnaðarstarf fyrir sig og er sá rétt kjörinn sem flest atkvæði hlýtur. Kjörstjórn skal sjá um framkvæmd kosninga.

Komi engar breytingartillögur fram, né fleiri listar, teljast þeir félagar sem trúnaðarmannaráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir og skal kosningu þannig lýst á aðalfundi.

 

22. grein

Kjörstjórn

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarmannaráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum A.S.Í. skipar miðstjórn A.S.Í. þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

 

 

VI. KAFLI

FJÁRMÁL OG REKSTUR

 

23. grein         

Rekstur félagsins

Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld þess, skatt til heildarsamtaka launafólks sem félagið á aðild að sem og annan kostnað, er stafar frá samþykktum félagsfunda, stjórnar eða trúnaðarmannaráðs. Við meiriháttar ráðstafanir á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

 

24. grein         

Skoðunarmenn reikninga

Kjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara samþykktir og reikninga félagsins fyrir hvert reikningsár sem er almanaksárið og gera athugasemdir ef þörf er á. Skoðunarmenn eru kjörnir á aðalfundi. Auk athugunar hinna félagslegu skoðunnarmanna reikinga er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikiningsárs.

Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund.

 

25. grein         

Sjóðir félagsins

Sjóðir félagsins eru: Félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofsheimilasjóður, vinnudeilusjóður svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna verða. Þá á félagið einnig aðild að fræðslusjóðum verkafólks á landsbyggðinni, sem reknir eru sem sjálfstæðar stofnanir.

Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta á aðalfundi.Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í skuldabréfum, í bönkum eða sparisjóðum.

Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.

Félagssjóður greiðir allan almennan kostnað af starfsemi félagsins en þó skulu aðrir sjóðir standa straum af kostnaði hvers þeirra um sig skv. reglugerðum þeirra.

 

 

VII. KAFLI

UM LAGABREYTINGAR OG FÉLAGSSLIT

 

26. grein         

Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundarboði.

Til þess að breytingin nái fram að ganga,verður hún að vera samþykkt með 2/3 hluta greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna.

Breyting á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórnir hlutaðeigandi landssambanda og miðstjórn ASÍ hafa staðfest þær.

Reglugerðir, sem vitnað er til í lögum þessum, skulu bornar upp til samþykktar á aðalfundi félagsins, og taka gildi hljóti þær samþykki einfalds meirihluta fundarmanna.

 

27. grein         

Félagsslit

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verklýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.

Um sameiningu félagsins við annað verkalýðsfélag, skal fjallað á sama hátt og um lagabreytingar. Um úrsögn úr ASÍ eða aðildarsamtökum þess fer skv. lögum ASÍ.

 

 

 

 

Lög félagsins þannig samþykkt á aðalfundi félagsins félagsins þann 19 júní 2013.