Í nýrri auglýsingarherferð Samtaka atvinnulífsins ( SA ) er fullyrt að launahækkanir á almennum vinnumarkaði séu megin orsakir fyrir óstöðugleika, verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Er þar sérstaklega vitnað í nýlega samantekt frá Seðlabankanum ásamt því að bera saman launahækkanir hér heima við launahækkanir á hinum Norðurlöndunum. En stöldrum aðeins við. Launahækkanir kjarasamninganna 2011 gáfu 11% launahækkanir á samnningstímanum, var þar sérstaklega horft til láglaunataxta og lagfæringa á bónuskerfum í fiskvinnslu. Á sama tíma hefur launaskrið umfram kjarasamninga orðið allnokkurt eða um 17%. Varla ber almennt launafólk sem fékk um 11% í launahækkun ábyrgð á því launaskriði? Á sama tíma hafa fjármálastofnanir eins og t.d. Seðlabanki Íslands verið að hækka laun langt umfram það sem þarna kemur fram.
Verum þess minnug að sjálfur Seðlabankastjóri fékk um 253.000 króna launahækkun á mánuði á þessu ári. Rifjum upp eitt mikilvægt atriði í þessu samhengi, lágmarkslaun í landinu eftir 4 mánaða starf hjá sama atvinnurekanda eru kr. 204.000. Seðlabankastjóri, sá sem gagnrýnir almennar launahækkanir hvað mest, fékk sem sagt heil mánaðarlaun verkamanns + 49.000 krónur í launahækkun á mánuði, en á sama tíma gagnrýnir hann kröfur verkalýðshreyfingarinnar upp á 20.000 króna launahækkun á mánuði. Ég held að Seðlabankastjóri ættti að skammast sín fyrir þennan málflutning og líta sér nær.
Bankarnir eru stútfullir af peningum, nýjustu hagnaðartölur frá t.d. Landsbanka Íslands upp á 22.300.000.000 eða 22,3 milljarða fyrstu níu mánuði þessa árs, eða rúmlega 81,2 milljóna hagnaður á dag staðfesta að svo sé. Ekki verður almenningur í landinu var við neinn afslátt frá bönkunum þrátt fyri þessa góðu stöðu. En væikjum víkjum sögunni að Arion banka sem nýverið hefur tekið upp kaupaukakerfi sem mun færa starfsmönnum allt að 25% í kaupauka á ári. Þar á bæ segjast menn vera að laga sig að því starfsumhverfi sem bankar á Íslandi eru í. Einmitt, ekki erum við þar að tala um almennt launafólk! Þessi sami banki hefur gagnrýnt verkalýðhreyfinguna harðlega fyrir óraunhæfar kröfur um launahækkanir fyrir sitt fólk. Á sama tíma hækka þeir laun hjá sjálfum sér um 25% á ári!! Mönnum getur ekki verið sjálfrátt.
Síðan geysast Samtök atvinnulífsins fram og lepja alla vitleysuna upp eftir greingardeildum þessara banka og hrópa, ekki bara á torgum, heldur á dýrasta auglýsingatíma í sjónvarpi, að verkalýðshreyfingin ætli að kollvarpa landinu með óhóflegum kaupkröfum. Þá er 240.000 kallinn hjá Seðlabankastjóra eða kaupaukar bankanna ekkert tiltökumál. Nei það er 20.000 kallinn sem krafist er að verkamaðurinn fái sem er vandamálið. Sveiattann og ekkert annað! SA væri nær að setjast að samningaborðinu með verkalýðshreyfingunni og leggja þar fram raunhæfar tillögur til lausnar deilunni í stað þess að fara með viðræðurnar í auglýsingatíma sjónvarps, slíkt skilar engum árangri nema síður sé.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest