Ingimar Karl Helgason skrifar ágæta grein á sína heimasíðu í gær er tengist auglýsingum Samtaka atvinnulífsins síðustu daga. Honum er að sjálfsögðu brugðið eins og fjölmörgum öðrum Íslendingum. Við fengum leyfi hans til að birta greinina á heimasíðu stéttarfélaganna. Greinin er svohljóðandi:
Samtök atvinnulífsins segja ósatt í ósmekklegri sjónvarpsauglýsingu. Nú er farið í rándýra áróðursherferð til að sannfæra okkur almenning um að við eigum ekki skilið mannsæmandi laun. Líka er logið upp á okkur að laun almennings hafi orsakað verðbólguna sem varð af falli krónunnar og hruninu. Nokkru sem ýmsir stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins bera fulla ábyrgð á, ásamt með sjálfstæðisflokknum og framsóknarflokknum og raunar fleirum. Almenningur orsakaði ekki þessa verðbólgu. Auglýsing SA er frekja, fölsun og lygi.
En hvaða fólk er á bak við áróðurinn? Það er fróðlegt fyrir íslenskan almenning að kanna hvaða kjör þetta fólk býr við, sem vill engar kjarabætur til handa almenningi.
Lítum snöggvast á stjórn SA. Hér eru upplýsingar um alla sem ég fann í fljótu bragði í nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Björgólfur Jóhannsson: 3,5 milljónir á mánuði (42 milljónir á ári).
Adolf Guðmundsson: 1,8 milljónir á mánuði (21,6 milljónir á ári).
Arnar Sigurmundsson: 800 þúsund á mánuði (9,6 milljónir á ári).
Árni Gunnarsson: 1,9 milljónir á mánuði (22,8 milljónir á ári).
Birna Einarsdóttir: 2,8 milljónir á mánuði (33,6 milljónir á ári).
Finnur Árnason: 8,3 milljónir á mánuði (99,6 milljónir á ári).
Hjörleifur Pálsson: 5,1 milljón á mánuði (61,2 milljónir á ári).
Margrét Kristmannsdóttir: 900 þúsund á mánuði (10,8 milljónir á ári).
Ólafur Marteinsson: 1,7 milljónir á mánuði (20,4 milljónir á ári).
Rannveig Rist: 5,8 milljónir á mánuði (69,6 milljónir á ári).
Sigríður Margrét Oddsdóttir: 1,6 milljónir á mánuði (19.2 milljónir á ári).
Sigsteinn P. Grétarsson: 9,3 milljónir á mánuði (111,6 milljónir á ári).
Sigurður Viðarsson: 2,8 milljónir á mánuði (33,6 milljónir á ári).
Svana Helen Björnsdóttir: 1,3 milljónir á mánuði (15,6).
Tryggvi Þór Haraldsson: 1,1 milljón á mánuði (13,2 milljónir á ári).
Þorsteinn Már Baldvinsson: 2,5 milljónir á mánuði (30 milljónir á ári).
Sumir úr þessum hópi eru ekki bara tekjuháir, heldur líka stóreignafólk, milljarðamæringar sem eru með umsvif víða í íslensku atvinnulífi.
Meðalmanneskja á Íslandi er með 402 þúsund krónur á mánuði. Það nær ekki fimm milljónum á heilu ári. Margir úr stjórn SA eru með meira en það í hverjum mánuði.
65% Íslendinga eru með regluleg laun undir 402 þúsundum á mánuði. Laun kvenna eru að jafnaði miklu lægri en karla.
Ætlum við að sætta okkur við að þetta milljónafólk haldi okkur niðri með áróðri og ofbeldi?Samtök atvinnulífsins hafa undanfarið staðið í auglýsingaherferð gegn hækkun lægstu launa. Margir hafa séð ástæðu til að gera alvarlegar athugsemdir við vinnubrögð SA.