Fyrirtækið Martak í Grindavík lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er eftir Hafnargötunni þar í bæ. En þegar inn er komið og garnirnar raktar úr framkvæmdastjóranum Stefáni Hauki Tryggvasyni, kemur annað í ljós. Fyrirtækið er annað af tveimur í heiminum sem framleiðir pillunarvélar fyrir rækju. Það er umsvifamikið í kanadískum rækjuiðnaði, er komið inn á markaðinn við Mexíkóflóann og vesturströnd Bandaríkjanna. Þá er fyrirtækið að með verkefni í rækjuiðnaði í Indlandi. Asíu og Evrópu, Tyrklandi og Ítalíu. Auk þess að vera í rækju er Martak búið að þróa búnað til vinnslu á þorsklifur og hefur sett upp niðursuðuverksmiðjur á Íslandi, og er með sambærilega verkefni í gangi í Noregi. Ýmislegt fleira er í gangi. Kvotinn.is is leit í heimsókn til Stefáns í Martaki.
„Við erum nú að vinna í endurbótum í fiskvinnslu Vísis í Grindavík þar sem Vísis menn eru að endurnýa vinnslubúnað í saltfiskvinnslu þess og að reisa nýa metnaðarfulla fjölnota fiskvinnslu þar sem við erum einnig með tækjabúnað í. Þá erum við að vinna að stóru verkefni á Indlandi, en þar er um að ræða rækjuverksmiðju fyrir japanskt fyrirtæki. Annað verkefni er þar einnig í pípunum þar sem verið er að vélvæða pillun á rækju, en þessar verksmiðjur eru með um 800 til 1.200 manns í vinnu við að handpilla rækju. Ég veit ekki hvort hækkandi launakostnaður er að hvetja menn þarna til að vélvæða pillunina eða krafan um aukin afköst, en launin eru ansi lág á þessu svæði,“ segir Stefán.
shrimpFarið yfir í pillun á hrárri rækju
En það er víðar leitað fanga.
„Okkar vélar hafa hingað til verið mest notaðar til að pilla soðna rækju, (kaldsjávarrækju) en nú erum við að þróa okkur inn á hrápillunarmarkaðinn sem er mun stærri. Við erum með pillunarvélar í að hrápilla rækju á Ítalíu og í Tævan með góðum árangri. Annars er aðaláherslan á að komast inn í rækjuvinnsluna við Mexíkóflóa, sem er gífurlega umsvifamikil. Þar er rækja sem er svo stór að það eru allt niður í 20 stykki í kílói. Kaldsjávarrækjan, sem verið er að vinna hér heima, til dæmis, telur frá 80/90 upp í 400+ stykki í kílói og því er ólíku saman að jafna. Í verkefni okkar á Indlandi er smæsta rækjan allt upp í 1.200 stykki í kílói. Við Höfum gert tilraunir með hrápillun hér heima með væntanlegum kaupendum og þeir eru ánægðir með útkomuna og nýtinguna sem þeir eru að fá úr vélpilluninni. Við sjálfir vorum smá hissa á þeim árangi sem við náðum með að pilla þessa smárækju. Þess ber þó að geta að það koma fleiri að svona tilraunum, og ber að nefna Hall Viggósson í Optimal ehf í Grindavík en þeir vinna mikið með okkur í þróun og lausnum fyrir sjávariðnaðinn. Sérstaklega þegar kemur að notkun hjálparefna við pillun til að auka gæði og nýtingu.
Að hrápilla rækju krefst þess að við þurfum aðeins að bæta við okkar vöruflóru til að geta boðið heildarlausn fyrir hrápillun, en fyrir svona stóra rækju þarf aðeins öðruvísi búnað. Markmiðið er að klára það á þessu ári. Þar með getum við boðið heildarlausn fyrir pillun hvort sem er fyrir soðna eða hráa rækju. Í dag nær okkar vöruflóra frá innmötun að pökkun, en tæki eins og sjálfvirkar hreinsivélar fyrir rækju (digital/optical sorting machines) og frystar er eitthvað sem við kaupum af þriðja aðila.“
Makaður fyrir fyrrtæki eins og Martak, sem sérhæfir sig í framleiðslu á vélbúnaði til rækjuvinnslu og þjónustu við rækjuiðnaðinn er ekki stór á Íslandi. Nú eru hér aðeins 5 til 6 rækjuverksmiðjur, á Hvammstanga, Siglufirði, Sauðárkróki, Hólmavík, Grundarfirði og Ísafirði. Þegar mest var, voru verksmiðjur hérlendis hins vegar yfir 20 talsins. Martak er að þjónusta þessar verksmiðjur með tækjabúnaði, sérstaklega í völsum fyrir pillunarvélarnar, sem er einn mikilvægasti einstaki þáttur í pillun á rækju. „Síðan er fyrirtækið með um 80% af rækjuverksmiðjum á Nýfundalandi í þjónustu, 50% í Nova Scotia, en einhverra hluta vegna höfum við ekki náð inn til New Braunswick og Quebeq enn sem komið er, en það mun koma.“
Hráefnisverð á kaldsjávarrækju hefur hækkað talsvert að undanförnu. Afurðaverð hefur ekki hækkað í samræmi við það. Því hefur framleiðslukostnaður hækkað og fyrirtækin leita leiða til að mæta því. Veiðar hér heima eru enn litlar og verksmiðjurnar byggja vinnsluna mest á innfluttri iðnaðarrækju.
Annað af tveimur í heiminum
„Martak hefur mikla sérstöðu því við erum annað fyrirtækið af tveimur í heiminum sem framleiðir pillunarvélar. Keflaframleiðsla er kjarnastarfsami fyrirtækisins og við erum alltaf að styrkja hana frekar með frekari vöruþróun og fá fleiri viðskiptavini til þess að nota okkar vörur og þjónustu. Samkeppnin er mjög hörð og hart barist á þessum markaði sem myndi þó í raun ekki bera fleiri aðila, hins vegar er samkeppnin nauðsynleg bæði fyrir okkur og viðskiptavini okkar til viðhalda eðlilegri þróun. Við keyrum á sömu verðum hér heima og erlendis og það er að gera okkur samkeppnihæfari á erlenda markaðnum. Þessu má samt líkja við söguna um Davíð og Golíat þar sem hjá Martak starfa um 20 manns á Íslandi og um 10 í Kanada en risinn, Laitram, í Bandaríkjunum sem við keppum við er með um 1500 manns í vinnu út um allan heim.
Íshúðunartæki fr´Martaki
Íshúðunartæki frá Martaki
Þeirra vígi er New Orleans og Mexíkóflóinn ásamt Asíu. Við Ómar Ásgeirsson, stofnandi Martaks, fórum þarna fyrir einu og hálfu ári og fundum fyrir mjög miklum áhuga hjá rækjuverkendum á því að kynnast því sem við erum að gera og höfum að bjóða. Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun um að fara inn á þennan markað, en til þess að gera það, vantar okkur að bæta aðeins við tækjaflóruna til þess að geta tekið á öllum vinnsluferlunum fyrir hrápillun. Rækjan er stór og með þykkri og harðari skel, í henni görn eins og í humri, sem þarf að fjarlægja eftir pillun og þetta krefst sérstaks búnaðar. Síðan þarf frekari búnað á pillunarvélarnar sjálfar til að geta pillað hana hráa og haldið upp þeim afköstum sem óskað er, en margar verksmiðjurnar eru að vinna allt að 8 tonn á tímann. En það góða við þetta er að gúmmíið sem við notum á keflin hefur verið að koma vel út í hrápillun þannig að við erum mjög bjartsýnir á þetta verkefni.
Miklir möguleikar
Þessar viðbætur sem við þurfum að fara út í, er búið að setja í gang og það er áætlað að klára á þessu ári. Vaxtarmöguleikarnir fyrir okkur eru miklir í Ameríku og Asíu, og einnig í Evrópu en þetta eru erfiðir markaðir og langt inn á þá. Við erum í leiðinni að kanna hvaða möguleika við höfum til að setja upp þjónustu á þessum stöðum. Venjulega vilja menn hafa þjónustuna nálægt sér og það þarf að skoða. Við erum þegar búnir að semja við eina rækjuverksmiðju í New Orleans og megum koma þar inn með allan þann búnað sem við höfum upp á að bjóða sem er stórt og mjög mikilvægt skref fyrir okkur. Við gerum þetta ekki nema í góðu samstarfi við rækjuframleiðendur hvort sem það er innanlands eða erlendis.
Okkar helsta vara síðustu misseri eru pækilkæli kerfi sem sett eru upp fyrir framan frysta til að kæla niður afurð fyrir frystingu. Með innleiðingu þessara kerfa hafa viðskiptavinir okkar náð mun betri gæðum, auknum afköstum og betri nýtingu í rækjuiðnaðinum. En núna erum við einnig að þróa þennan búnað fyrir bolfiskvinnslurnar. Í þessum kerfum er afurðin tekin eftir hreinsun og kæld niður í mínus eina og hálfa gráðu áður en hún fer inn á lausfrystinn. Með þessu höfum við verið að auka frystigetuna í verksmiðjunum um 250 til 500 kíló á klukkutíma. Það hefur hjálpar okkar viðskiptavinum þannig að þeir hafa ekki þurft að leggja í mikinn kostnað við endurnýjun á frystum til að auka afköstin. Mest um vert fyrir verksmiðjurnar eru gæðin en þau aukast við innleiðingu þessa kerfis ásamt því að þeir eru að fá aukin afköst og betri nýtingu. Við erum í dag búnir að selja 13 svona kælikerfi í rækjuverksmiðjur, humarverksmiðjur og fiskeldi og nú síðast settum við slíkt kerfi upp á vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem verið er að pilla rækju úr Kyrrahafinu, Pandalus Jordani. Kerfið hefur komið mjög vel út og er viðskiptavinurinn mjög ánægður sem er lykilatriði.
RækjuveiðarTil viðbótar þessu eru svo markaðir fyrir búnað til rækjuvinnslu í Noregi og á Grænlandi. Í Noregi eru reyndar aðeins tvær verksmiðjur eftir og fjórar á Grænlandi. Þetta eru mjög stórar verksmiðjur. Við erum með tæki þarna inni, en höfum ekki náð að koma keflunum okkar í pillunarvélarnar hjá þeim og það er erfitt að komast þar inn. Þessar verksmiður eru að vinna 120 til 130 tonn á dag og því eftir miklu að slægjast að komast inn með okkar búnað.
Það er mikið af tækifærum sem við þurfum að nýta okkur og stöðugt verið að vinna að þróun á nýjum búnaði og kerfum fyrir sjáfarútveginn. Sem dæmi erum við að fá ný gúmmíefni sem við erum að þróa með okkar byrgjum í Bandaríkjunum og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Nýa gúmmíið kemur til landsins nú í júlí og munum við fá samstarfsaðila til prufa það við raunaðstæður, Það er í raun eini rétti mælikvarðinn þar sem við fáum niðurstöður um hvort nýting, afköst og ending sé betri eða verri. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera í góðu samstarfi við iðnaðinn hér á Íslandi. Reyndar búum við svo vel að fyrirtækin í sjáfarútvegnum eru oftar en ekki tilbúin til að aðstoða við að prufa nýjar vörur sem er fyrirtæki eins og Martak gríðarlega mikilvægt.
Ný pillunarvél á leiðinni
Við erum líka að koma fram með nýja pillunarvél, en vélarnar hafa verið nánast óbreyttar frá upphafi, 1936 eða þar um bil. Planið er að vera með hana á sjávarútvegssýningunni í haust. Það verður algjör bylting í pilluninni. Nú er þetta allt með hefðbundnu sniði, en við ætlum okkur að taka þetta upp á 21. öldina þannig að hægt sé að stýra því betur hvernig maður pillar rækjuna. Vatn og rafmagn verður alltaf dýrara og nýja vélin mun spara verulega í því hvorutveggja, sérstaklega í vatninu. Það skiptir miklu máli erlendis og hér innanlands líka. Sé hægt að draga vatnsnotkun saman um 15 til 25% skiptir það miklu máli. Við munum jafnframt í nýju hönnuninni taka úr vélinni öll þau efni sem ættu ekki að vera í búnaði til vinnslu á matvælum. Efni eins og ál og kopar, en enn er það notað í suma íhluti í vélarnar. Þessu viljum við breyta og notast eingöngu efni sem eru viðurkennd fyrir matvælaiðnaðinn.
Nýa vélin mun einnig koma með nýrri stýringu þar sem við munum getað stjórnað hve mikið valsarnir snúast og hversu hratt ásamt því að stýra vatninu miðað við þá pillunargráðu sem viðskiptavinurinn er að leitast við að ná. Þá eru fleiri breytingar sem við ætlum okkur í en ekki tímabært að telja þær upp hér. Við munum kynna það þegar að því kemur.
Blásarar frá Martaki hafa reynst mjög vel i rækjuiðnaðinum
Blásarar frá Martaki hafa reynst mjög vel i rækjuiðnaðinum
Öflugir skelblásarar
Við höfum selt milli 50 og 60 Martaks skelblásar í rækjuiðnaðinn bæði innanlands og erlendis. en í þeim höfum við náð meiri afköstum og betri hreinsun en keppinautarnir. Segja má að við séum ráðandi á þeim markaði. Blásarinn hreinsar lausa skel úr rækjunni, en ferlið er þannig: Eftir pillunina kemur svokallaður þvælari, sem er græja sem fer fram og til baka í vatni á hjólum. Hann losar lappir, hausa og lausa skel frá rækjunni. Úr þvælaranum fer rækjan svo í blásarann, sem hreinsar alla lausa skel og hausa og lappir í burtu frá rækjunni. Þaðan fer rækjan venjulega inn á hreinsivél, þar sem myndavél eða leiser skannar rækjuna og skýtur frá rækju sem enn er með skel eða er gölluð. Þessar vélar voru kallaðar „kerlingabani“ þegar þær komu fyrst. Þegar búið er að hreinsa rækjuna þá ferhún í kælikerfið og loks lausfrysti og síðan pökkun.
Gildi blásarans í vinnslulínunni er mjög mikilvægt. Hann léttir miklu álagi af hreinsivélinni. Væri ekki búið að forhreinsa rækjuna í blásaranum myndi hreinsivélarnar ekki hafa undan. Þess vegna eru menn oft með nokkra blásara í hverri verksmiðju á misjöfnum stöðum í vinnsluferlinu. Þessir blásarar eru til allt frá hálfum metra á breidd í um í 1,6 metra á breidd. Þeir eru þá sniðnir að öðrum þáttum í vinnslulínunni. Við smíðum blásarana eftir pöntunum og máli og þá er ekkert annað að gera í verksmiðjunni en að bæta honum inn í línuna og stinga í samband. Þetta eru mjög endingargóðar græjur. Þess vegna mettast markaðurinn hægt og rólega, þó er alltaf einhver hreyfing. Við erum til dæmis með blásara í verksmiðjum bæði hér heima og í Kanada sem eru orðnir tíu og ellefu ára.“
Hanna og setja upp lifrarvinnslur
Ýmislegt fleira er unnið hjá þeim í Martaki en búnaður til rækjuvinnslu.
„Þetta er bara hluti af því sem við erum að gera, við erum að fjölga eggjunum í körfunni og höfum til dæmis byggt lifrarniðursuðuverksmiðju hjá Ægi Seafood í Grindavík og aðra fyrir þá í Ólafsvík sem var sett í gang á þessu ári. Síðan erum við að færa okkur aðeins yfir í bolfiskinn. Erum að þjónusta hann í töluverðum mæli hjá fyrirtækjum eins og Vísi og Einhamri. Við reynum að koma okkur aðeins í þann farveg líka, því það er vont að stóla á eina grein og einhæfa framleiðslu fyrir hana. Við þurfum því að vera svolítið sveigjanlegir, sem og við erum.
Hvað lifrarverksmiðjunar varðar erum við að hanna þær frá innmötun yfir í pökkun. Við kaupum eða viðskiptavinurinn kaupir beint inn vélarnar sem skammta í og loka dósunum, þær vélar eru mjög sérhæfðar. Allt annað smíðum við. Við sjáum um innmötun, forhreinsun og ensímbað, þar sem himnan er hreinsuð af lifrinni, megnið af orminum er yfirleitt í himnunni á lifrinni, þetta leiðir að því að fækka starfsfólki við að hreinsa lifrina. Síðan kemur tromla með saltpækli sem stoppar virkni ensímsins, þá kemur málmleitartæki og loka skoðum fyrir pökkun. Frá pökkuninni er dósirnar teknar í gegnum þvottavél og í stálvagna sem dósirnar fari í inn í suðuna. Þetta erum við allt með. Við erum einnig með pökkunarlínu og miðaprentun ef með þarf. Þarna erum við með eins mikla sjálfvirkni og við getum en auðvitað þarf af fólki í vinnsluna.
Við höfum verið með nokkur verkefni í lifraniðursuðu bæði hér heima og í Noregi. Í dag eru um það bil 5 lifraverksmiðjur á Íslandi, það er í Grindavík, Sandgerði, Kópaskeri, Súðavík, Ólafsvík og tvær á Akranesi og þar ríkir mikil samkeppni. Verð á lifur fer því stöðugt hækkandi, en auk niðursuðunnar er Lýsi hf. að kaupa lifur. Reyndar held ég að gott samstarfs sé milli Lýsis og verksmiðjanna hvað nýtingu lifrarinnar varðar.“
En hvernig hefur afkoman verði á þessum harða markaði? „Við vorum með met ár í hitteðfyrra, árið í fyrra var aðeins þyngra, en þetta ár lítur svo mun betur út. Þetta er engin gullnáma og það þarf að hafa fyrir hlutunum, en það er ákveðin áskorun þegar alltaf þarf að vera að leita og finna leiðir til að gera betur en aðrir og ná árangri. Það er það sem skiptir máli í þessu. Í því sambandi skipta starfmenn okkar miklu máli. Að þeir séu sjálfstæðir og sýni frumkvæði í verki. Ég lít svo á að menn eiga að fá tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr í vinnunni. Frumkvæði og sköpun í starfi er ein af grunnstoðunum í okkar vinnu. Við erum mjög heppin að vera með mjög gott starfsfólk og það vill ná árangri, það hvetur mann enn meira áfram. Mottoið er, það eru ekki til vandamál aðeins verkefni sem þarf að leysa,“ segir Stefán.
Ræða samvinnu við Keili
Samvinna við háskólakerfið í auknum mæli er Stefáni líka hugleikin. „Við erum líka í öðrum verkefnum, til dæmis í samvinnu við háskólasamfélagið í Keili. Við getum þá unnið með háskólafólkinu að ýmsum rannsóknargögnum, getum sett upp alvöru verkefni fyrir nemendur, sem hluta af námi þeirra og niðurstöðurnar verið svo til hagsbóta fyrir okkur og okkar viðskiptavini. Þannig að allir aðilar hagnast í raun eins og vera á í öllu samstarfi. Það þarf að styðja meira við samvinnu atvinnulífs og skóla, miklu meira en þegar er gert. Skólarnir þurfa raunveruleg verkefni og við þurfum menntað fólk til að vinna þau fyrir okkur. Ég held að þar liggi mikil tækifæri og við munum gera það sem við getum til að auka þessa samvinnu. Ég þekki þetta frá Belgíu. Þegar ég var að vinna fyrir 3X Technology á Ísafirði, þá unnum við með fyrirtæki þar, sem er í háskólabæ, þar sem tæknifyrirtæki byggist upp í kringum háskólann og mjög virkt samstarf er milli skólans og fyrirtækjanna. Það er endalaust verið að þróa eitthvað lengra og þannig fær skólinn verkefni og fyrirtækin hugsanlega lausnir.
Við erum til dæmis að vinna verkefni í próteinvinnslu, sem er mjög áhugavert. Það felst í að stýra heimtum á próteini úr öllu frárennslisvatni úr fiskvinnslum. Ég hef komið að slíkum verkefnum í Kanada og þar eru menn að ná ótrúlegu magni af próteinmassa úr affallsvatninu. Miðað við síaukið fiskeldi í heiminum vantar alltaf meira og meira fóður og þetta er einn liður því því að nýta allt sem hægt er. Codland hér í Grindavík er einnig þegar á fullu í að þróa vinnsluna til að nýta allt 100% sem úr fiskinum kemur. Ég tel þó að það þurfi að koma meira fjármagn í þetta frá ríkinu, því það skiptir miklu máli fyrir okkur sem þjóð að iðnaður hér sé fremstur í heiminum í nýtingu afurðanna á hverju stigi sem það er. Ekki sé verið að dæla verðmætum í sjóinn. Ísland á að vera fremst í heiminum á þessu svið. Nýting á sjávarafurðum er mjög góð á Íslandi, betri en víðast hvar í heiminum, en það má gera enn betur. Við eigum að vera þarna fremst í flokki.
Standa framarlega
Ég tel að rækjuvinnslan hér á landi standi mjög framarlega í þessum efnum. Það er verið að vinna mjöl úr skelinni, kítín og kítósan og ýmislegt fleira. Ég hef kynnt mér slík verkefni og kynnt þau fyrir kanadískum og bandarískum fjárfestum og þar er áhugi, en svona verkefni eru dýr. Og menn vilja sjá arð af svona fjárfestingum. Giska á að kostnaður við kítinverksmiðju liggi á bilinu 500 til 1000 miljónir fullbúin. En í raun er það spurningin hversu langt menn vilja fara í fullvinnsluferlinu. Ef verið er að tala um verksmiðju sem er að vinna úr 100 tonnum af rækju á dag, má ætla að menn séu að skila um 45 til 50 tonnum af skel. Úr því er hægt að vinna mjöl. Ef affallsvatnið úr verksmiðjunni yrði jafnframt tekið og hreinsað út því allt prótein væri hægt að ná úr því um einu tonni af próteinmassa á klukkutíma. Því mætti svo bæta í mjölið til að hækka próteininnihald þess og gera það fýsilegri kost sem fóður, eða til frekari framhaldsvinnslu. Þetta allt eru menn að skoða. Kampi í Bolungarvík hefur framleitt mjöl og Rammi á Siglufirði er kominn mjög langt með sína kítósanverksmiðju, en þeir taka skel frá nokkrum vinnslum á landinu.
Annars snýst þetta sem við erum að gera mikið um að útvega lausnir fremur en að vera að selja eitt og eitt tæki sem við gerum vissulega líka. Það er verið að leysa ákveðin verkefni fyrir viðskiptavinina og þá er að gert að hluta til eða frá A-Ö. Við erum til dæmis með mjög áhugavert verkefni í Noregi. En þar vill viðskiptavinurinn að við sjáum um allt, ekki bara tækin og uppsetninguna, heldur vilja þeir að við sjáum um rafmagnið og vatnið og fleira. Þeir vilja bara fá verksmiðju með öllu, rétt eins og „eina með öllu“. Það er kannski meira lýsandi fyrir ástandið í Noregi, en þar er nánast enga iðnaðarmenn að fá frekar en á Íslandi. Þeir vilja heldur vera í olíubransanum eða eru hreinlega ekki til. Þetta er svolítið sérstakt fyrir okkur því við sjáum yfirleitt aldrei um þessa vinnu. Venjulega sjáum við um uppsetningu á okkar eigin tækjum og eða kerfum. Fyrir vikið er þetta mikil áskorun sem gaman er að takast á við. Það skýrist með haustinu hvenær úr verður en þetta yrði þá mjög stórt verkefni fyrir okkur. Þá verðum við að spýta í lófana og bæta enn frekar við okkur mannskap, en það er stöðugt vandamál að fá fagfólk í þennan geira, bæði suðumenn og þó sérstaklega rennismiði.
Kerfið hefur brugðist
Skólakerfið og stjórnvöld ásamt fyrirtækjunum hafa brugðist iðnaðinum í fjölmörg ár. Iðnnámið hefur verið um árabil talað niður og lítið hugsað um raunverulegar þarfir atvinnulífsins. Það liggur við að þetta hafi verið þannig að ákveðnum hópi, reyndar alltof stórum, hafi verið beint í menntaskólana, en hinum sagt að þeir ættu þar ekkert heima og gætu bara farið í iðnskóla. Með bættu samstarfi skóla og fyrirtækja er verið að bæta þarna verulega úr.“
Nýjar kennsluaðferðir
Stefán vill einnig nefna sem dæmi samstarf skóla og fyrirtækja á Ísafirði sem er til fyrirmyndar og hann hvetur alla til að skoða frekar. „Þar er verið að vinna stöðugt að því að bæta og efla samstarfið milli skóla og atvinnulífs á svæðinu, kennslan er að færast að hluta til inn í fyrirtækin, þau eru yfirleitt búin mjög fullkonum framleiðslutækjum sem skólarnir hafa ekki, nemendur kynnast þá nýjustu tækni og þeim fyrirtækjum sem kennslan fer fram í. Að mínu mati er þetta eitthvað sem þarf að leggja mun meiri áherslu á í framtíðinni,“ segir Stefán Haukur Tryggvason