Ályktun um ríkisfjármál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið í Hofi á Akureyri 16. – 18. október 2013 krefst þess að skattkerfið verði nýtt til tekjujöfnunar og hagsbóta fyrir þá lægst launuðu í landinu. Það er sanngirniskrafa að fólk með hæstu tekjurnar leggi hlutfallslega meira til samneyslunnar en fólk með lágar tekjur. Því leggur þing SGS áherslu á að viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og boðaðar skattalækkanir verði nýttar til að mæta þörfum þeirra sem hafa lægstar tekjur, t.d. með því að hækka persónuafslátt.
Þing SGS krefst þess að breytingar á lífeyri eldri borgara og öryrkja miðist að því að bæta kjör þeirra sem minnst bera úr býtum. Tiltrú fólks á lífeyriskerfinu hefur minnkað vegna víxlverkana og skerðinga á milli almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins. Það veldur því að fólk sjái sér síður hag í því að greiða í lífeyrissjóði alla starfsævina.
Þing Starfsgreinasambandsins mótmælir harðlega þeim auknu álögum á sjúklinga sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Nú á enn að hækka kostnaðinn sem hlýst af því að veikjast. Lágtekjufólk á Íslandi er þegar farið að neita sér um tannlækna- og læknaþjónustu vegna of hárra gjalda. Eðlilegra er að velferðarþjónustan sé fjármögnuð með sköttum frekar en með notendagjöldum frá veiku fólki.
Þing Starfsgreinasambandsins fagnar sérstaklega því sem kom fram í máli félags- og húsnæðismálaráðherra á þinginu að áfram verði tryggt fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur. Þær hafa skilað miklum árangri á síðustu árum. Hluti af þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við atvinnuleysi síðustu ár má þakka ýmsum tilraunaverkefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar.
Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir að stjórnvöld hafi einhliða ákveðið að grípa inn í starfskjör og kjarasamninga fiskvinnslufólks með því að fella burt greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna rekstrarstöðvunar af völdum hráefnisskorts. Forsenda þess er að 3. málsgrein laga nr. 19/1979 sem heimilar fyrirtækjum að senda fiskvinnslufólk heim í hráefniskorti án launa verði breytt. Starfsgreinasambandið hefur margoft boðist til að ræða breytingar á þessu fyrirkomulagi til að tryggja að fiskvinnslufólk búi við sama starfsöryggi og annað launafólk.
Leave a Reply