Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi og voru mörg mál á dagskrá fundarins. Á fundinum kom fram hörð gagnrýni á aðgerðaleysi ríkistjórnarinnar í skuldavanda heimilanna og á framkomið fjárlagafrumvarp þar sem boðaðar eru frekari álögur á launafólk, álögur sem koma til með að koma sérstaklega illa við láglaunafólk. Ályktunin er svohljóðandi:
Ályktun um kjaramál
-Orðið strax ekki teygjanlegt hugtak-
Framsýn stéttarfélag krefst þess að ríkistjórnin standi við gefin kosningaloforð og taki á skuldavanda heimilanna strax. Í huga Framsýnar er orðið strax ekki teygjanlegt hugtak.
Framsýn gagnrýnir framkomið fjárlagafrumvarp sem felur í sér auknar álögur á launafólk í formi aukinnar skattheimtu s.s. í formi hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, innlagna á sjúkrahús, bensín- og olíugjaldi. Þá skila boðaðar skattalækkanir á tekjuskatti sér ekki til þeirra lægst launuðu heldur aðeins til þeirra tekjuhærri. Það á einnig við um frekari breytingar á skattkerfinu sem fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Það er að tekið verði upp eitt skattþrep á kjörtímabilinu. Láglaunafólk, öryrkjar og ellilífeyrisþegar eru skyldir eftir sem er óskiljanlegt að mati félagsins enda búa þessir hópar almennt við lökustu kjörin í dag. Þeim er ætlað að greiða sambærilega skatta áfram, þetta eru greinilega breiðu bökin að mati ríkistjórnarinnar.
Framsýn telur mikilvægt að svigrúm til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna í formi hærri persónuafsláttar og hvetur því stjórnvöld til að endurskoða boðaðar breytingar á tekjuskatti með þessi sjónarmið í huga.
Framsýn ítrekar skoðun félagsins um að gerður verði skammtíma kjarasamningur við núverandi aðstæður, það er í mesta lagi til 12 mánaða.
Framsýn skorar jafnframt á elítuna að taka hendur úr vösum og leggjast á árarnar með almennu verkafólki með það að markmiði að byggja upp þjóðfélag án ójöfnuðar og misskiptingar. Við annað verður ekki unað enda núverandi ástand þjóðarskömm.