Hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað er mjög mikilvægt, bæði fyrir félagsmenn og ekki síst fyrir stjórn stéttarfélagsins og starfsmenn þess. Hlutverk og staða trúnaðarmannsins er ákveðin bæði í lögum og í kjarasamningum.
Kosning trúnaðarmanns • Á öllum vinnustöðum þar sem starfa fleiri en 5 starfsmenn á að vera trúnaðarmaður starfandi. • Ef það eru fleiri en 50 starfsmenn má kjósa tvo trúnaðarmenn. • Ef vinnustaðurinn kýs ekki trúnaðarmann getur stéttarfélagið tilnefnt trúnaðarmann. • Trúnaðarmaður er ekki kosinn lengur en til tveggja ára í senn. Hvað gerir trúnaðarmaður? • Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum og sem slíkur er hann tengiliður félagsins og starfsmannanna. • Trúnaðarmaðurinn á að gæta þess að ráðningar- og kjarasamningar standi og að ekki sé gengið á rétt starfsmanna. • Starfsfólk á að snúa sér til trúnaðarmannsins með umkvartanir sínar. Trúnaðarmaðurinn á að rannsaka málið strax. Komist hann að því að umkvartanir eigi við rök að styðjast skal hann snúa sér til atvinnurekandans eða fulltrúa hans með umkvörtun og kröfu um lagfæringu. Trúnaðarmaðurinn þarf ekki að bíða þess að kvörtun berist, ef hann grunar að það sé verið að brjóta á starfsmanni getur hann hafist handa við að skoða málið. Trúnaðarmönnum ber að gefa stéttarfélaginu skýrslu um umkvartanir strax og við verður komið. • Allar upplýsingar sem trúnaðarmaður fær í hendur eru trúnaðarmál! Réttindi trúnaðarmanns • Trúnaðarmanni er heimilt að sinna vinnu sinni sem trúnaðarmaður í samráði við verkstjóra og eiga laun hans ekki að skerðast af þeim sökum. • Trúnaðarmanni er heimilt að boða til vinnustaðafunda tvisvar á ári í samráði við stéttarfélagið og atvinnurekanda. Fundinn skal boða með þriggja daga fyrirvara og skal fundurinn haldinn á vinnutíma. • Trúnaðarmaður skal hafa aðgang að læstri hirslu á vinnustað. • Trúnaðarmaður skal bera kvartanir starfsfólks upp við verkstjóra eða aðra stjórnendur fyrirtækis, áður en leitað er til annarra aðila. Trúnaðarmaður getur þó alltaf verið í samráði við stéttarfélagið og leitað ráða þar. • Nýir starfsmenn á vinnustað geta fengið fræðslu frá sínum trúnaðarmanni um helstu reglur og venjur á vinnustaðnum auk upplýsinga um stéttarfélagið. • Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, þá skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Menntun og fræðsla trúnaðarmanna • Félagsmálaskóli alþýðu er starfsræktur af ASÍ og BSRB og er hlutverk hans að skipuleggja og framkvæma námskeið fyrir trúnaðarmenn aðildarsamtakanna, starfsmenn og stjórnir. • Félagsmálaskólinn skipuleggur bæði lengri og styttri námskeið eftir óskum félaganna en trúnaðarmannanámskeiðin eru kennd samkvæmt námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. • Trúnaðarmannanámskeiðin eru oftast haldin á í svæði hvers félags. • Á vefsíðu skólans má finna Handbók trúnaðarmannsins, sem er eitt af verkfærum trúnaðarmanna. Þar er einnig að finna námsskrár Fræðslumiðstöðvarinnar yfir trúnaðarmannanámið. Á vefsíðunni eru auglýst þau námskeið sem framundan eru og fer skráning á flest námskeiðin fram á síðunni www.felagsmalaskoli.is.
Frekari upplýsingar um trúnaðarmenn má finna á Vinnuréttarvef ASÍ.
STARFSGREINASAMBAND ÍSLANDS | GUÐRÚNARTÚNI 1 | 105 REYKJAVÍK | SÍMI: 562 6410 | SGS@SGS.IS | WWW.SGS.IS
Leave a Reply