Miðstjórn ASÍ lýsir því yfir að traust á embætti ríkissáttasemjara hefur skaðast með
því að leggja fram ótímabæra miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og SA. Miðstjórn
telur að færa megi rök fyrir og véfengja hvort embætti sáttasemjara hafi með þessum
hætti farið út fyrir þær valdheimildir sem embættinu eru settar í lögum um
stéttarfélög og vinnudeilur. Framganga embættisins er atlaga að sjálfstæðum
samningsrétti stéttarfélaga, gengur gegn áratuga venjum um samskipti aðila
vinnumarkaðarins og skorar miðstjórn ASÍ á ríkissáttasemjara að draga hana til baka.
ASÍ telur heimild til að leggja fram miðlunartillögu vera neyðarúrræði sem takmarkist
við að raunverulega hafi öll önnur úrræði verið tæmd og neyðarástand skapast.
Viðræðum milli Eflingar stéttarfélags og SA hafi vissulega verið slitið en hins vegar
standi nú yfir lýðræðisleg atkvæðagreiðsla um hvort boða skuli til verkfalls.
Verkfallsboðun hafi því ekki verið samþykkt af félagsmönnum, verkfall ekki verið
boðað og ekkert neyðarástand skapast.
ASÍ telur heimild sáttasemjara jafnframt bundna við að átt hafi sér stað náið samráð
við aðila um efni hennar og að hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k.
þegjandi samþykki beggja aðila. Hvorugt þessara skilyrði sé uppfyllt.
Leave a Reply