Í gær undirrituðu 18 aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga en Verkalýðsfélag Grindavíkur er aðili að þessum samningi og gildir hann fyrir félagsmenn okkar.
Það má segja að þetta sé framlenging á síðasta kjarasamningi enda gildir þessi samningur einungis til 31. mars 2024.
Það sem er nýtt í þessum samningi lýtur að svokölluðum sérstökum greiðslum lægstu launa en hér er verið að samræma samninga sem gerðir hafa verið að undanförnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta gildir þannig að frá launaflokki 117 til launaflokks 130 koma inn sérstakar greiðslur á hvern launaflokk en eðli málsins samkvæmt er hæsta greiðslan á launaflokk 117 eða 19.500 kr. og lægsta greiðslan á launaflokk 130 eða 2.600 kr.
Einnig er rétt að geta þess að þessar sérstöku greiðslur lægstu launa gilda afturvirkt frá 1. apríl og sem dæmi þá munu launaflokkar frá 117-124 fá sérstaka greiðslu sem nemur 19.500 kr. og mun hún gilda afturvirkt eins og áður sagði. Það þýðir að afturvirknin getur numið 136.500 kr. ef þetta kemur til greiðslu 1. nóvember.
Einnig eru viðbótarlaun á einstök starfsheiti og er þar sérstaklega verið að horfa á starfsheiti í leikskólum og heimaþjónustu. Rétt er að geta þess að þessi viðbótarlaun gilda frá 1. október og nemur hækkunin til dæmis hjá starfsmanni/leiðbeinanda í leikskóla 39.270 kr. en til að eiga rétt á þessari greiðslu er getið um að starfsfólk matist með börnum á leikskóla. Persónuálag verður samkvæmt grein 10.2.1., starfsþróunarnámskeið, gr. 10.2.3. menntun á framhaldsskólastigi og gr. 10.2.4 meistarabréf. Þau geta að hámarki orðið 6%. Hinsvegar er persónuálag vegna símenntunar og starfsreynslu óbreytt.
Í þessum samningi er einnig fest í sessi breyting á greiðslum vegna vaktarálags þar sem til dæmis vaktarálag vegna stórhátíðardaga fer upp í 120% en á aðfangadag og gamlársdag kl. 16-24 og jóladag og nýársdag kl. 00:00-8:00 verður 165% álag.
Desemberuppbót verður þann 1. desember 2023 131.000 kr. en var árið 2022 124.750 kr.
Sameiginleg atkvæðagreiðsla hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS verður rafræn í gegnum Advania og hefst í dag 14. september kl. 12 og lýkur 26. september kl. 9 en tengill inn á kosninguna mun birtast hér á forsíðu heimasíðunnar.
Leave a Reply