Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness segir hækkanir forstjóra og stjórnenda fyrirtækja hrein og klár svik. Vilhjálmur vill að íslensk verkalýðshreyfing taki sér höndum saman, og krefjist réttlætis í kjarasamningum. Þetta kom fram í frétt Bylgjunnar í morgun.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar koma fram tekjur Íslendinga um land allt. Athygli vakti við útgáfu blaðsins í ár að helst hafa laun forstjóra og stjórnenda hækkað. Hækkunin hjá stjórnendum nemur að meðaltali 40 prósentum, eða rúmlega 600 þúsund krónum á mánuði. Þetta finnst Vilhjálmi óásættanlegt.
„Verkalýðsfélag Akraness gerði kröfu um að laun verkafólks myndi hækka um tuttugu þúsund krónur í síðustu kjarasamningum. Fyrir þau orð, var ég sem foringi verkalýðsfélagsins á Akranesi kallaður lýðskrumari, og nú koma stjórnendur fyrirtækja og fá hækkun sem nemur allt að 600 þúsund krónum,“ sagði Vilhjálmur.
Vilhjálmur er ósáttur með auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins.
„Við skulum heldur ekki gleyma því að Samtök Atvinnulífsins réðust hér í mikla auglýsingaherferð í aðdraganda síðustu kjarasamninga þar sem talað var um að ef ekki væri talað saman á hófstilltum nótum, um launahækkun verkafólks, sem ekki mætti vera hærri en 2,8%, myndi hér ríkja óðaverðbólga,“ sagði Vilhjálmur einnig.
Engin nýlunda
Vilhjálmur segir það ekki nýtilkomið að komið sé fram við verkafólk á slíkan hátt.
„Áttum okkur á einu – þetta er engin nýlunda. Ætíð þegar semja á um kaup og kjör þeirra tekjulægstu þá kemur þessi stefjalausi hræðsluáróður í hvert einasta sinn, um að hér muni allt fara fjandans til, ef launakjör íslensks verkafólks verða hækkuð, sem einhverju nemur.“
Að lokum hvetur Vilhjálmur verkalýðinn til samstöðu, og kallar á réttláta leiðréttingu launakjara.
„Nú þarf íslensk verkalýðshreyfing að taka höndum saman, íslenskt verkafólk þarf að taka höndum saman, og við látum þetta óréttlæti ekki yfir okkur ganga öllu lengur. Þetta er ekki hægt.“