Árið 2015 var mikið átakaár á íslenskum vinnumarkaði og var ljóst frá upphafi kjaraviðræðna að mjög myndi reyna á samstöðu launafólks til að ná fram bættum kjörum. Verkalýðshreyfingin með Starfsgreinasamband Íslands ( SGS ) í broddi fylkingar fór fram með mjög sanngjarnar kröfur um hækkun lægstu launa. Var stefnan sett á að ná lágmarkslaunum í 300.000 krónur á samningstímanum. Ekki voru allir á einu máli um aðferðir SGS í kjarabaráttunni og fékk samninganefnd SGS jafnvel gagnrýni úr röðum aðildarfélaga ASÍ. Félagsmenn í SGS létu slíka gagnrýni ekki á sig fá og héldu kröfunni um 300.000 krónu lágmarkslaun hátt á lofti allan tímann. Hver var svo niðurstaðan, jú, 300.000 króna lágmarkslaun hafa verið rauði þráðurinn í nánast öllum kjarasamningum sem gerðir hafa verið jafnt á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Má segja að kröfur verkafólks um hækkun lágmarkslauna hafi orðið einskonar þjóðarkrafa almennings á Íslandi sem blöskraði hve lök launakjör verkafólks í raun eru. Þessum mikla árangri er ekki síst hægt að þakka félagsmönnum aðildarfélaga SGS sem Verk Vest er aðili að. En árangurinn náðist ekki átakalaust, því fer víðsfjarri.
Eftir mjög harðar viðræður sem höfðu staðið í rúmlega 5 mánuði var ljóst að nýjir kjarasamningar yrðu ekki gerðir án átaka. Forystufólk í verkalýðshreyfingunni fann fyrir mikilli samstöðu meðal félagsmanna sem kröfðust aðgerða ef ekki semdist. Varð því úr að kjósa um allsherjarverkfall meðal félagsmanna innan SGS og hófust aðgerðir 30. apríl. Fleiri aðildarfélög ASÍ bættust síðan í hópinn með boðun verkfallsaðgerða ef ekki yrði gengið til samninga á grundvelli kröfugerðar. Þegar ljóst var að landið yrði meira og minna lamað í verkfallsátökum þegar kæmi fram á sumar náðist loks lending og var nýr kjarasamningur samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna Verk Vest. Meginmarkmiðum var náð, 300.000 krónu krafan var í höfn og hækkun lægstu launa umfram önnur laun náði fram að ganga.
Allan tímann meðan á samningaviðræðum stóð dundi á verkafólki harður áróður úr röðum atvinnurekenda og bankamanna með Seðlabankastjóra fremstan í flokki. Heimsendaspár um hrun stærra en efnahagshrunið árið 2008 yrðu að veruleika ef samið yrði við verkafólk um 300.000 króna lágmarkslaun. Því var haldið fram að atvinnuleysi myndi aukast, verðbólga færi úr böndunum og kaupmáttur myndi rýrna sem aldrei fyrr. En hver varð reyndin? Verðbólga er með lægsta móti eða 2% og hefur vart mælst lægri um langan tíma þrátt fyrir ítrekaðar spár Seðlabanka og greiningadeilda bankanna um aukinn verðbólguþrýsting. Eftirspurn er eftir vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði og atvinnuleysi hefur farið minnkandi og gjaldþrotum hefur fækkað um 18% á árinu. Kaupmátturinn hefur ekki rýrnað heldur þvert á móti hefur hann verið umfram verðlag þrátt fyrir að seðlabankastjóri hafi ítrekað hækkað stýrivexti til að rýra kaupmátt launafólks. Það er hvorki gömul saga eða ný að fjármálaspekúlantar hafi rangt fyrir sér um íslenska hagkerfið og ekki í fyrsta sinn sem þeir skjóta yfir markið. Var ekki efnahagshrunið einmitt í boði banka og fjármagnseigenda? Ekki var hægt að kenna verkafólki um, svo mikið er víst.
Því miður sannast það aftur og enn að við búum í samfélagi þar sem tryggt er að þeir ríku verði ríkari og sjálftökuliðið sem skammtar sín eigin laun hefur enga sómatilfinningu gagnvart launakjörum verkafólks. Tvö mjög nýleg dæmi sanna að svo sé með mjög áþreifanlegum hætti. Fyrst ber að nefna hækkun launa peningastefnunefndar Seðlabankans sem hækkaði eigin laun um 100.000 krónur á mánuði. Þessi sama nefnd með Seðlabankastjóra í broddi fylkingar gagnrýndi mjög 25.000 króna hækkun taxtalauna verkafólks. Hitt dæmið er úrskurður kjararáðs um laun Alþingismanna og annarra embættismanna á Íslandi. Kjararáð ákvað að hækka laun embættis- og ráðamanna um 9,3% með afturvirkri hækkun frá 1. mars 2015. Hækkunin skilaði þessum hópi frá 60.000 – 200.000 króna hækkun mánaðarlauna ásamt eingreiðslu frá 540.000 – 1.800.000 krónum miðað við afturvirkniákvæði! Á sama tíma fékk verkafólk 25.000 krónur í launahækkun en aldraðir og öryrkjar voru skilin eftir út í kuldanum og mega áfram lepja dauðann úr skel. Byggjum réttlátt samfélag eða hitt þó heldur.
En baráttan heldur áfram og er langt í frá lokið. Nú stendur launafólk á Íslandi frammi fyrir mjög krefjandi verkefni. Verkefni sem mun reyna meira á stéttarfélögin og innviði þeirra en hefur þekkst í seinni tíð. Verkefnið er kennt við svokallað SALEK samkomulag. Félagsmenn innan ASÍ hafa lengi kallað eftir stöðugleika á vinnumarkaði og aukinn kaupmátt. Í SALEK samkomulaginu er lagður grunnur að slíkri leið. En leiðinni fylgir fórnarkostnaður sem félagsmenn verða spyrja sig hvort þeir séu tilbúnir að færa. Felst fórnarkostnaðurinn fyrst og fremst í skerðingu á samningsfrelsi sem kemur fram í því að allt svigrúm kjarasamninga verður fyrirfram ákveðið af svokölluðu Þjóðhagsráði. Ef það er leið sem tryggir stöðugleika og kaupmáttaraukningu verða félagsmenn að sjálfsögðu að spyrja sig hvort þeir eru tilbúnir að selja samningsfrelsið í skiptum fyrir slíkt samkomulag. Er það ásættanlegur fórnarkostnaður?
Um leið og ég óska félagsmönnum gleðilegra jóla, árs og friðar á nýju ári, þá hvet ég félagsmenn til að sýna áfram órúfjanlega samstöðu á nýju ári.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga
Leave a Reply